s

sunnudagur, mars 16, 2003

Skrítið hvað veður hefur áhrif..

Það er bara búið að vera sannkallað ekta íslenskt sól og sumar veður hérna síðustu daga og spáir því eitthvað áfram. Alveg frábært þegar veðrið er svona gott.

Í gærmorgun hringdi hún Bryndís í mig um hálftíu og spurði mig hvort ég væri til í að hjóla með henni niður í bæ áður en við færum í ræktina. Hún ætlaði að athuga með stafræna myndavél sem væri á tilboði. Við hjóluðum í góða veðrinu niður í bæ og í búðina...en myndavélarnar búnar. Þá ákváðum við bara að sleppa ræktinni og hjóla í staðinn í aðrar búðir sem eru talsvert frá miðbænum. Við komum í eina búð þar og fundum vélina, ákváðum að kaupa sitthvora vélina og vorum orðnar voða spenntar, eiginlega eins og litlar stelpur þarna, vantaði bara tíkaspennann. En við biðum og biðum eftir afgreiðslumanninum sem var að ná í vélarnar, en loksins fórum við til hans og þá fengum við slæmu fréttirnar...vélarnar uppseldar. En við ætluðum nú ekki að gefast upp, hjóluðum á milli búða en því miður var vélin hvergi svona ódýr...svo við fórum myndavélalausar heim en búnar að hjóla eitthvað um 16-17km á þessum búðartúr, svo þetta var nú ekki alslæmt í sólinni.

Við fengum svo heimsókn frá manni, sem er með Ingva í skóla, og fjölskyldu hans. En þau hjónakornin eiga tvö börn sem eru á svipuðu reiki og Nökkvi. Það var svo gaman að fylgjast með hvað þau voru feimin hvort við annað, fyrst . En svo þegar þau áttu að fara þá voru þau sko alveg til í að vera eftir og mamma og pabbi kæmu bara um kvöldið að sækja þau....hihi. En þau hittast náttúrulega bara síðar.

Svo um kvöldið, fórum við, litla fjölskyldan í mat til vinafólks okkar hérna, Freyju, Gumma og Ársólar. Þar var dýrindis önd á boðstólnum, rosagott, og eftir matinn kenndu þau hjónaleysurnar okkur danskt spil sem heitir Settles, rosalega skemmtilegt spil....við verðum að fjárfesta í slíkum grip við tækifæri.

Þetta var sem sagt hinn fínasti laugardagur...í dag er svo áætlunin að, ég, Bryndís og Nökkvi og kannski Ingvi og Gummi (ef þeir fara ekki að keppa í fótbolta), hjólum kannski niður í bæ, í einhvern góðan garð, tökum nesti með og spilum fótbolta eða frisbee. Svo seinni partinn er búið að lofa unga manninum á heimilinu að fara í keilu....það verður þá fyrsta skiptið hans í keilu. Það verður gaman og verð ég að taka myndir fyrir ykkur þar.

-srosin-

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home