s

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Hmmmm...

Alltaf læðist tíminn aftan að manni, ótrúlegt alveg! Já, allt í einu bankar Febrúar-mánuður upp á og vill komast að... og janúar nýbúinn að banka. Ég á bara ekki til orð og hleypi þessu að án þess að gera neitt. Til að mynda er Öskudagur og allur pakkinn í næstu viku.

Fór í gær með syninum að skoða einhverja búninga og ég náttúrulega með ákveðna skoðun á búningavali drengsins og hann með enn ákveðnari skoðun.
Ég: "sjáðu þennan, Nökkvi, þú værir svo sætur í svona bangsabúningi"
Hann lítur á mömmu sína eins og hún sé eitthvað skrítin, hann er sko enginn smákrakki lengur orðinn sjö!!!
... neiii... óskabúningarnir hans eru sko einhverjar ofurhetjur og jafnvel eitthvað hryllingsgerpi úr Scream-myndunum (sem ég fæ martraðir af að horfa á).
... ég er þessi leiðinda mamma sem vill nú ekki gefa syninum einhvern hryllingsbúning fyrir öskudaginn.
En í gær fattaði ég allt í einu að ég var orðin eins og hann pabbi minn (sem er ekki slæm samlíking yfirleitt) en hann var alltaf að segja mér í gamla daga: "þegar ég var lítill þá....blablabla (komu einhverjar hetjusögur um að hann hjólaði alltaf í skólann af Álftanesinu í Hafnarfjörðinn;))"
Jú, ég kom með svona ræðu fyrir son minn í gær.
"þegar ég var lítil á öskudeginum, þá bjuggum við nú til búninga, t.d. úr laki og vorum draugar (reyndar ekki mikil fjölbreytni í þá daga, draugur eða ruslapoki, hvað svo sem ruslapokinn átti að tákna, kannski Grýlurnar eða eitthvað). En minn maður tók ekki boðskapnum eins og ég vildi og leit á mig vorkunnaraugum og sagði: "voru ekki til neinir búningar þá, mamma, ææ"

En ég verð nú að segja að ég sakna þess að undirbúa öskudaginn með tilheyrandi saumaskap (mamma greyið sat þreytt yfir öskupokagerð) og það að slá köttinn úr tunnunni, það er eitthvað sem má vekja upp aftur!

En Screamkall... get ekki að því gert, finnst ekki viðeigandi að sjá þennan ógeðslega kall eða veru út um allar götur á öskudaginn... veit allaveganna að ef Screamkall bankar hjá mér á öskudaginn og fer með ameríska sönginn "grikk eða gott" þá fær hann hurðina á nefið!!!!

S r o s i n

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home